Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 508/2019 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

 

Mál nr. 508/2019

Þriðjudaginn 18. febrúar 2020

 

 

A

 

gegn

 

umboðsmanni skuldara

 

 

ÚRSKURÐUR

 

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

 

Þann 28. nóvember 2019 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 12. nóvember 2019, þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

 

Með bréfi, dags. 2. janúar 2020, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 6. janúar 2020.

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 13. janúar 2020, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

 

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi er fædd X. Hún býr í eigin fasteign að B sem er 116 fermetrar að stærð. Samkvæmt greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara 17. október 2019 eru heildarskuldir kæranda 31.426.357 krónur.

 

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 19. júní 2019 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar.

 

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 7. október 2019 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður. Í bréfinu vísaði umsjónarmaður til þess að kærandi ætti fasteign sem verðmetin væri á 50.000.000 króna og væri þar miðað við verðgildi sambærilegra eigna á sama svæði. Á fasteign kæranda hvíli veðlán frá Íslandsbanka, upphaflega að fjárhæð 23.800.000 krónur, nú 25.766.556 krónur. Mánaðarleg afborgun af láninu væri 101.000 krónur. Kærandi eigi mánaðarlega 47.554 krónur aflögu til að greiða af skuldbindingum sínum, að teknu tilliti til framfærslukostnaðar, en miðað sé við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara og meðaltal útborgaðra tekna kæranda á tímabilinu maí til júlí 2019. Til þess að kærandi geti haldið fasteign sinni skorti 54.446 krónur á mánuði. Þar sem gögn málsins gáfu til kynna að kærandi hefði ekki greiðslugetu til að halda fasteigninni hafi umsjónarmaður óskað eftir afstöðu kæranda til sölu hennar. Kærandi tók ekki afstöðu til sölu eignarinnar heldur benti á að hún ætti von á landareign í arf innan skamms sem hún gæti selt og þar með væri málið leyst. Kæranda var veittur frestur til að taka afstöðu til sölunnar en engin skýr afstaða af hennar hálfu barst umsjónarmanni. Umboðsmanni skuldara hafi því verið tilkynnt að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun samkvæmt lge. væri heimil samkvæmt 15. gr. lge. þar sem kærandi hafi hvorki látið umsjónarmann vita um afstöðu sína til sölu fasteignarinnar né hvort hún vilji afturkalla umsókn sína um greiðsluaðlögun. Þá væri það mat umsjónarmanns að óljóst væri hvort kærandi væri um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa við skuldbindingar sínar og hvort hún uppfyllti þar með skilyrði a-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

 

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf, dags. 18. október 2019, þar sem henni var kynnt framkomin tillaga umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir hennar. Í bréfi umboðsmanns skuldara kom fram að samkvæmt launaseðlum kæranda frá september til nóvember 2019 skorti 28.912 krónur á mánuði til þess að kærandi gæti staðið undir afborgunum veðkrafna. Þá var kæranda jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hennar til greiðsluaðlögunar. Kærandi brást við bréfi umboðsmanns skuldara með tölvupósti 6. nóvember 2019 og með upplýsingagjöf á fundi samdægurs.

 

Með ákvörðun, dags. 12. nóvember 2019, felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. og 1. mgr. 16. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar eftir því að fá að haldast í greiðsluskjóli umboðsmanns skuldara þannig hún geti fengið aðstoð. Kærandi kveðst ekki óska eftir niðurfellingu skulda. Verður að skilja þetta svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

 

Kærandi tekur fram að hún muni fá launahækkun innan skamms og svo ætli hún að taka að sér fleiri vaktir. Þá muni hún fara í gegnum fjármál sín og kanna hvort hægt sé að lækka eitthvað. Kærandi telur aðalmálið vera að þann X muni hún erfa land sem sé verðmætt sem hún geti svo selt. Hún muni svo að sjálfsögðu nota þá fjármuni til að lækka skuldir sínar.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

 

Í sérstökum athugasemdum við 13. gr. frumvarps er síðar varð að lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 segir að við mat á því hvort mælt sé með sölu fasteignar umsækjanda skuli meðal annars horft til þess hvort íbúðarhúsnæði skuldara sé bersýnilega verulega umfram þá stærð sem skuldara og fjölskyldu hans hæfir. Þá segir í niðurlagi 1. mgr. 13. gr. að umsjónarmanni sé heimilt að leita afstöðu lánardrottna áður en mælt sé með sölu fasteignar, þyki honum ástæða til.

 

Í almennum athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögunum sé jafnframt vísað til að skuldara skuli að jafnaði vera gefinn kostur á að búa áfram í húsnæði sínu ef það telst ekki bersýnilega ósanngjarnt, svo sem vegna stærðar þess eða verðmætis.

 

Kærandi sé eigandi íbúðar að B. Fasteignamat eignarinnar fyrir árið 2019 sé 44.300.000 krónur en matið hækki í 47.500.000 krónur árið 2020. Umsjónarmaður hafi kannað verðgildi sambærilegra eigna á sama svæði og niðurstaðan verið sú að verðgildi eignarinnar væri um 50.000.000 krónur.

 

Að mati umboðsmanns skuldara sé íbúðin hvorki óhæfileg að stærð né verðmæti fyrir kæranda og börn hennar.

 

Á fasteign kæranda hvíli veðskuldabréf frá Íslandsbanka að fjárhæð 25.537.642 krónur, samkvæmt kröfulýsingu frá 9. júlí 2019, og sé mánaðarleg afborgun af því 101.000 krónur samkvæmt sömu kröfulýsingu. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum sé greiðslugeta kæranda 72.088 krónur. Upplýsingar byggi á tekjum á framlögðum launaseðlum vegna september, október og nóvember 2019, auk meðlags og barnabóta. Því liggi fyrir að kæranda vanti 28.912 krónur (101.000-72.088) á mánuði til að geta staðið undir afborgunum veðkrafna. Kærandi hafi greint frá því að hún geri sér vonir um að fá launahækkun. Henni hafi verið veitt svigrúm til að veita embættinu frekari upplýsingar um mögulega hækkun launa en kærandi hafi engar slíkar upplýsingar lagt fram né gögn því til staðfestingar. Samkvæmt kröfulýsingu í málinu sé einnig til staðar lögveðskrafa vegna vanskila fasteignagjalda að fjárhæð 223.671 króna. Í útreikningi umboðsmanns skuldara hafi ekki verið tekið tillit til greiðslu á vanskilum lögveðskrafna.

 

Hvort heldur verðgildi fasteignar sé miðað við fasteignamat eignarinnar fyrir árið 2019 eða markaðsvirði samkvæmt athugun umsjónarmanns þá falla veðkröfurnar í heild innan virði eignarinnar þar sem veðsetningarhlutfallið sé á bilinu 51-58%. Væru aðstæður kæranda þess eðlis að þær féllu undir tímabundna heimild til lægri mánaðargreiðslna veðkrafna og greiðslurnar tækju mið af 60% af hæfilegri leigu sambærilegrar eignar á almennum markaði gæti tímabundin afborgunarfjárhæð numið um 148.874 krónum. Leigufjárhæð sé áætluð út frá upplýsingum Þjóðskrár um leiguverð frá 16. janúar 2019. Í ljósi þess að 60% af hæfilegri leigu sé hærri fjárhæð en raunafborgun af veðskuldabréfinu séu aðstæður kæranda ekki með þeim hætti að þessi tímabundna leið komi að gagni fyrir kæranda.

 

Mat á því hvort fasteign kæranda skuli seld byggi fyrst og fremst á því hvort tekjur hennar dugi til að greiða af eigninni.

 

Í þessu sambandi sé bent á að umboðsmaður skuldara geti ekki haft milligöngu um samningsumleitanir fyrir kæranda taki hún ekki virkan þátt í ferlinu, meðal annars með því að veita umbeðnar upplýsingar og gögn. Í máli þessu liggi fyrir að kærandi hafi hvorki sýnt fram á að hún geti staðið undir afborgunum af fasteign sinni né hafi hún samþykkt að eignin verði seld. Kveðið sé á um skyldu umsækjenda til samráðs við gerð frumvarps í 16. gr. lge.

 

Í a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði þess að leita greiðsluaðlögunar.

 

Í 1. mgr. 2. gr. lge. segir að sá einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýnir fram á að hann sé og verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Í 2. mgr. 2. gr. lge. segir að einstaklingur teljist ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar þegar ætla má að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti.

 

Kærandi hafi greint frá því að hún sé ein af erfingjum K sinnar og að unnið sé að skiptum á dánarbúi. Að sögn kæranda erfi hún X% af landi C og mun söluverðmætið vera umtalsvert. Með sölu á landinu kveðst kærandi geta greitt vanskil sín og jafnvel skuldirnar í heild.

 

Ekkert liggi fyrir um umræddan arf annað en orð kæranda og að hún hafi haft meðferðis kort af landinu á fund með starfsmanni umboðsmanns skuldara þann 6. nóvember 2019. Í samskiptum við kæranda hafi komið fram að vandi hennar sé einungis tímabundinn þar til hún geti komið landinu í verð, sbr. það sem fram hafi komið í bréfi til embættisins frá 18. október 2019.

 

Að mati umboðsmanns skuldara verði að telja að geti kærandi komið skuldum sínum í skil innan skamms, og jafnvel greitt þær niður að fullu, geti hún ekki talist um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar, sbr. 1. mgr. 2. gr. lge., og því uppfylli hún ekki skilyrði þess að leita greiðsluaðlögunar. Sýni fyrirliggjandi gögn ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði greiðsluaðlögunar beri að synja um heimild til að leita greiðsluaðlögunar, sbr. a-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

 

Að mati umboðsmanns skuldara sé við mat á máli þessu ekki unnt að ganga út frá því að kærandi fái innan skamms verðmæta landareign í arf þar sem ekkert liggur fyrir í málinu sem staðfestir að hún sé erfingi hlutar af landareign á C eða hvers virði eignarhluturinn er.

 

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi heimild kæranda til greiðsluaðlögunar verið felld niður samkvæmt 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. og 1. mgr. 16. gr. lge.

 

Í greinargerð umboðsmanns skuldara, dags. 6. janúar 2020, kemur fram að kæranda hafi verið veitt færi á að gera athugasemdir og leggja fram gögn í málinu vegna þeirra atriða sem hafi þótt geta leitt til niðurfellingar heimildar til greiðsluaðlögunarumleitana. Eftir að hafa skoðað upplýsingar sem bárust frá kæranda hinn 6. nóvember 2019 og gögn málsins komst umboðsmaður skuldara engu að síður að þeirri niðurstöðu að rétt væri að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar. Í hinni kærðu ákvörðun sé sú niðurstaða rökstudd og með því hafi verið tekin afstaða til framkominna upplýsinga og gagna. Í kæru skortir á athugasemdir kæranda, kröfur hennar og rök. Embætti umboðsmanns skuldara geti af þeim sökum ekki tekið frekari afstöðu til kæruefnisins og fari fram á, með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar, að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

 

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge. og 1. mgr. 16. gr.

 

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. segir að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr.

 

Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

 

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. skal skuldari greiða fastar mánaðarlegar greiðslur af þeim veðkröfum sem eru innan matsverðs eignar á tímabili greiðsluaðlögunar. Greiðslurnar megi ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla má að mati umsjónarmanns að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir þá eign er greiðsluaðlögun varðar, nema sérstakar og tímabundnar aðstæður séu fyrir hendi.

 

Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að markmið þeirra aðgerða, sem gripið hafi verið til vegna skuldavanda fólks, hafi verið að forða því frá að missa heimili sín og gera því kleift að standa undir greiðslubyrði lána. Að jafnaði skuli gefa skuldara kost á að búa áfram í húsnæði sínu teljist það ekki bersýnilega ósanngjarnt, svo sem vegna stærðar þess eða verðmætis. Umsjónarmaður geti þó ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í ljósi nauðsynjar skuldara á að halda íbúðarhúsnæði sé almennt miðað við að skuldari verði ekki krafinn um sölu þess nema í sérstökum tilvikum. Þó verði að gæta þess að skuldari geti til frambúðar staðið undir greiðslubyrði afborgana af húsnæði.

 

Í athugasemdum með 13. gr. lge. segir að í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felist að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils sé rétt að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt sé.

 

Miðað við mánaðarlegar ráðstöfunartekjur kæranda, bætur og útgjöld í hverjum mánuði á tímabilinu september til og með nóvember 2019 var greiðslugeta hennar 72.088 krónur á mánuði áður en greitt var af fasteignaveðlánum.

 

Kærandi er eigandi íbúðar að B. Fasteignamat eignarinnar fyrir árið 2019 sé 44.300.000 krónur en matið hækki í 47.500.000 krónur fyrir árið 2020. Umsjónarmaður telur að matsverð eignarinnar sé 50.000.000 króna. Samkvæmt gögnum málsins nemur greiðsla af áhvílandi lánum innan fyrrgreinds matsverðs fasteignarinnar rúmum 101.000 krónum á mánuði. Sem áður segir hefur kærandi 72.088 krónur aflögu á mánuði til að greiða af skuldbindingum sínum og vantar því 28.912 krónur á mánuði til að geta greitt af veðlánum innan matsverðs. Samkvæmt þessu lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge., þar sem engin viðbrögð bárust af hálfu kæranda við fyrirmælum umsjónarmanns um að fasteign hennar yrði seld. Í kjölfarið felldi umboðsmaður skuldara niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar með ákvörðun, dags. 12. nóvember 2019.

 

Af málatilbúnaði kæranda og í ljósi þess er að framan greinir verður ekki annað ráðið en að hún hafi hafnað því að framfylgja fyrirmælum umsjónarmanns um að selja fasteign sína.

 

Þá telur kærandi líkur á að tekjur hennar muni brátt aukast til framtíðar litið og auk þess eigi hún von á arfi innan skamms. Úrskurðarnefndin getur ekki byggt niðurstöðu sína á öðru en þeim staðreyndum og gögnum sem þegar liggja fyrir í málinu. Ekkert í gögnum málsins styður sjónarmið kæranda um að tekjur hennar muni aukast í framtíðinni vegna atvinnuþátttöku hennar. Þá hafi kærandi ekki lagt fram nein gögn til stuðnings yfirlýsingum um að hún hafi fengið landareign í arf síðastliðin áramót eða að hún eigi senn von á þeim arfi. Þá liggja ekki fyrir nein gögn í málinu sem styðja að kærandi eigi yfirhöfuð slíkt arfstilkall. Kærandi vísar þannig til óvissra og ókominna atvika sem óljóst er hvort og þá hvenær verði. Af þeim sökum er ekki unnt að byggja úrlausn málsins á þessum sjónarmiðum kæranda.

 

Við þessar aðstæður, sbr. það sem að framan hefur verið rakið, verður að telja að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 5. mgr. 13. gr., sbr. 15. gr. lge.

 

Með vísan til þess er hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara, um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda, staðfest.

 


 

ÚRSKURÐARORÐ

 

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Kári Gunndórsson

 

 

                                          

      Björn Jóhannesson                                                              Þórhildur Líndal                

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum